Innlent

Fordómar leynast víða í námsefni

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
„Mennirnir á jörðinni eru ekki allir eins. Svartir menn eru kallaðir negrar.“ Svo hljóðar heimaverkefni fyrir börn í öðrum bekk í Varmárskóla. Það er ekki einsdæmi að námsbækur sem innihalda úreltar upplýsingar séu í umferð í grunnskólum og ekkert eftirlit er með slíku.

Í bókinni sem um ræðir er tekið fram að gulir menn séu kallaðir mongólar og búi flestir í Asíu. Rauðir menn séu kallaðir rauðskinnar eða indíánar og þeir búi í Ameríku. Vísir.is fjallaði um málið í gærkvöldi og vakti það mikla athygli og fjölmargir tjáðu sig í athugasemdakerfi fréttarinnar. 

Þórhildur Elvarsdóttir, skólastjóri í Varmárskóla sagði svo í viðtali við vefinn í dag að bókin sem um ræðir, "Við lesum C," hafi verið í umferð fyrir mistök. Bókin sé notuð sem aukaefni fyrir íslensku og efnistök í verkefnum hafi farið framhjá kennurum.

Slíkt er ekki einsdæmi. Bókin Þjóðfélagsfræði er ætluð efstu bekkjun grunnskólans og er skrifuð af Garðari Gíslasyni. Bókin hefur verið gefin út þrisvar sinnum frá árinu 2000. Í kafla bókarinnar um kynvitund og fjölskyldur kemur fram að hjónabönd fólks af mismunandi kynþáttum séu afar sjaldgæf. Ef þau verða er það yfirleitt þannig að karlinn er svartur og konan hvít.

Í gátlista sem úthlutað er til höfunda námsefnis kemur fram að námsefni skuli tala fyrir mannréttindum og jafnrétti manna. Það skuli vera laust við fordóma. Þá beri að gæta þess að málefni minnihlutahópa sé þannig að þeir geti samsvarað sig námsefninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×