Enski boltinn

Hazard með þrennu og Chelsea á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eden Hazard skoraði öll þrjú mörkin í 3-0 sigri Chelsea á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni nú síðdegis. Með sigrinum komst Chelsea á topp deildarinnar.

Hazard skoraði fyrsta markið á 27. mínútu með laglegu skoti eftir sendingu frá Branislav Ivanovic. Hann bætti öðru marki við aðeins sjö mínútum síðar eftir frábæra sókn sem lauk með þríhyrningsspili við Samuel Eto'o í teig gestanna.

Eto'o átti einnig þátt í þriðja markinu en hann fiskaði vítaspyrnu á 63. mínútu sem Hazard skoraði úr af miklu öryggi.

Moussa Sissoko fékk gott færi fyrir Newcastle í stöðunni 1-0 en Petr Cech, markvörður Chelsea, varði frá honum.

Chelsea er nú eitt á toppi deildarinnar með 56 stig, einu stigi á undan Arsenal sem tapaði fyrir Liverpool fyrr í dag, og tveimur á undan Manchester City sem mátti sætta sig við markalaust jafntefli gegn Norwich.


Tengdar fréttir

City fékk bara eitt stig í Norwich

Manchester City mistókst að endurheimta efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið gerði í dag markalaust jafntefli gegn Norwich á útivelli.

Liverpool fór illa með toppliðið

Liverpool gerði út af við Arsenal með því að skora fjögur mörk á fyrstu 20 mínútum í leik liðanna í dag en honum lauk með 5-1 sigri heimamanna á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×