Innlent

81% verðmunur á hjólbarðaverkstæðum

Mikið er að gera á dekkjaverkstæðum landsins um þessar mundir.
Mikið er að gera á dekkjaverkstæðum landsins um þessar mundir.
Í nýrri verðlagskönnun frá Alþýðusambandi Íslands kemur í ljós að allt að 81% verðmunur er á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu. Könnuð var verðskrá hjá 29 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið sl. miðvikudag.

Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa með 18" álfelgum (265/60R18) sem var ódýrust á 7.157 kr. hjá Bifreiðaverkstæði S.B á Ísafirði en dýrust á 12.980 kr. hjá N1, verðmunurinn var 5.823 kr. eða 81%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð er þjónustan ódýrust hjá Bifreiðaverkstæði S.B. á Ísafirði á 7.157 kr., en dýrust á 11.800 kr. hjá Kaldasel verðmunurinn var 4.643 kr. eða 65%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti undir smábíl,  minni meðalbíl og meðalbíl á 14, 15 og 16" stálfelgu (175/65R14, 195/65R15 og 205/55R16), sem var ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu Kópavogi, en dýrust á 6.950 kr. hjá Kletti, verðmunurinn var 1.960 kr. eða 39%. Fyrir 14 og 15" álfelgu er þjónustan ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 7.590 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.600 kr. eða 52%. Fyrir 16" álfelgu er þjónustan ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 7.980 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.990 kr. eða 60%.

Skipting, umfelgun og jafnvægisstilling fyrir jeppling á 16" álfelgum (225/70R16) var ódýrust á 5.990 kr. hjá Dekkjahúsinu Kópavogi en dýrust á 9.780 kr. hjá N1, verðmunurinn var 3.790 kr. eða 63%. Fyrir bíl með stálfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 5.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 8.900 kr. hjá Kletti, verðmunurinn var 2.910 eða 49%.  

12 hjólbarðaverkstæði með sama verð og í fyrra

Þegar verð fyrir fyrrgreinda þjónustu hjólbarðaverkstæða er borin saman við verðið í fyrra kemur í ljós að tólf þeirra hafa ekki hækkað hjá sér verðið á þjónustu við dekkjaskipti á meðalbíl með 16" álfelgu (205/55R16) síðan í október 2012. Mesta hækkunin var hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk 19% og þar á eftir kom hækkun hjá Vöku upp á 11%, einnig hefur verðið hækkað hjá Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns og Kletti um 9%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×