Fótbolti

Bellamy kveður landsliðið í ár

Craig Bellamy.
Craig Bellamy. Mynd/NoridcPhotos/Getty
Craig Bellamy, leikmaður Cardiff og velska landsliðsins, hefur ákveðið að hætta að spila með velska landsliðinu þegar undankeppni HM lýkur en Wales á ekki lengur möguleika á því að komast á HM í Brasilíu 2014.

Bellamy er orðinn 34 ára gamall en hann er í velska landsliðshópnum sem mætir Makedóníu á föstudaginn og fer síðan til Belgíu eftir helgi. Þetta verða tveir síðustu landsleikir Bellamy en hann hefur spilað 76 A-landsleiki fyrir Wales. Það eru bara Neville Southall (92) og Gary Speed (85) sem hafa spilað oftar fyrir Wales.

"Leikmenn koma og fara í landsliðinu og landsliðsferillinn minn er klárlega á endastöð. Ég verð að gera það sem best fyrir landsliðið og þessi hópur er framtíð liðsins. Ég sé mig ekki spila tvö ár til viðbótar með landsliðinu," sagði Craig Bellamy við BBC.

Craig Bellamy komst aldrei á stórmót með velska landsliðinu en hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik á móti Jamaíku 1998. Hann hefur skorað 19 landsliðsmörk fyrir Wales og er sá fimmti markahæsti frá upphafi á eftir þeim Ian Rush, Trevor Ford, Ivor Allchurch og Dean Saunders.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×