Fótbolti

Blatter íhugar að bjóða sig aftur fram

Forseti FIFA, Sepp Blatter, er einn umdeildasti maðurinn í íþróttaheiminum og forsetatíð hans hefur verið ansi skrautleg.

Þrátt fyrir það hefur Blatter setið á forsetastóli frá árinu 1998. Hann sagði árið 2011 að þetta yrði hans síðasta kjörtímabil sem forseti.

Næst verður kosið um forseta árið 2015 og Blatter virðist hafa snúist hugur því hann íhugar að bjóða sig aftur fram.

"Ég hef verið hjá FIFA í 38 ár og hef ekki lokið mínum verkefnum. Ég vil klára þau," sagði hinn 77 ára gamli Blatter.

Kosið er um forseta FIFA á fjögurra ára fresti en Blatter vill breyta því þannig að kosið verði á átta ára fresti.

"Ég er enn ungur í anda og við hestaheilsu. Ég get haldið áfram að láta gott af mér leiða fyrir FIFA. Ég mun ákveða mig endanlega á næsta ári hvort ég býð mig fram á ný eður ei."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×