Fótbolti

„Það gaus úr hverunum á Íslandi“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Skjáskot
Sparkspekingurinn James Richardson heldur úti vikulegum örþætti á vefsíðu Guardian. Þar fjalla hann um gang mála í evrópskum fótbolta og einblínir á forsíður dagblaða.

Þátturinn er á gamansömum nótum enda er Richardson, sem gerði garðinn frægan á sínum tíma sem sérfræðingur Englendinga í ítalska boltanum á hátindi hans snemma á tíunda áratugnum, þekktur fyrir góðan húmor.

Í þætti gærdagsins voru úrslitin í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu eðlilega á dagskrá. Fyrsta forsíðan sem Richardson dró upp var hjá Fréttablaðinu:

„Það gaus úr hverunum á Íslandi,“ sagði Richardson og bætti við, kaldhæðnislega, að árangur fótboltalandsliðsins hefði komist á forsíðuna þrátt fyrir allt hið fréttnæma sem væri að gerast á eyjunni okkar.

Fleiri Íslendingar komu við sögu í umfjölluninni. Stór hluti hennar fjallaði um aðstoðina sem Bandaríkjamenn veittu Mexíkó á þriðjudaginn. Flest benti til þess að Panama væri að komast áfram á kostnað Mexíkó. Mark Arons Jóhannssonar undir lok leiksins gegn Panama gerði Grafarvogsbúann að þjóðhetju í Mexíkó.

Innslag Richardsons má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×