Enski boltinn

Cabaye þakkar gulum búningum gott útivallargengi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Yohan Cabaye
Yohan Cabaye Mynd/Gettyimages
Yohan Cabaye, miðjumaður Newcastle hefur einfalda skýringu á góðu útivallargengi liðsins á þessu tímabili, þeir einfaldlega tapa ekki í nýju gulu útibúningum liðsins. Newcastle lagði Crystal Palace af velli 3-0 í gær og hefur unnið alla þrjá leiki liðsins í gulu treyjunni á þessu tímabili.

Sigur Newcastle gegn Manchester United var fyrsti sigur liðsins á Old Trafford síðan 1972 og fylgdi hann góðum sigri gegn Tottenham á White Hart Lane en liðið spilaði í gulu búningunum báða þessa leiki.

„Við elskum að spila í þessum búningi, við erum búnir að spila þrisvar í honum og höfum unnið alla leikina. Þetta er þriðji búningurinn en okkur líkar vel við hann svo kannski ættum við að nota þennan alltaf á útivöllum,” sagði Cabaye léttur.

Newcastle hefur verið á góðu skriði og hefur fengið þrettán stig úr síðustu sex leikjum. Sigurinn gegn Crystal Palace var gríðarlega öruggur og Cabaye var ánægður með frammistöðu liðsins í leiknum.

„Við náðum að skora þrjú mörk, halda hreinu og taka stigin þrjú. Þetta var fullkomin frammistaða rétt fyrir tvo mikilvæga heimaleiki. Við viljum vera í toppbaráttu og vonandi getum við haldið áfram á þessari braut,” sagði Cabaye.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×