Bíó og sjónvarp

Ár Járnmannsins

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Járnmaðurinn malaði gull.
Járnmaðurinn malaði gull.
Kvikmyndaárið 2013 er senn á enda og er því við hæfi að stikla á stóru yfir það sem fyrir augu bar. Óvenju fáar íslenskar myndir voru frumsýndar á árinu, en þær voru aðeins sex.

Sem fyrr voru það fokdýrar tæknibrellumyndir sem skiluðu mest í kassann og er það þriðja myndin um Járnmanninn sem trónar á toppi listans yfir þær kvikmyndir sem skiluðu mestum hagnaði á heimsvísu. Samtals halaði hún inn rúmlega 1,2 milljarða Bandaríkjadala, tæpum 300 milljónum meira en myndin í öðru sæti. Athygli vekur að fimm tekjuhæstu kvikmyndir ársins eru allar framhaldsmyndir.

1. Iron Man 3 (1,2 milljarðar dala)

2. Despicable Me 2 (919 milljónir dala)

3. Fast & Furious 6 (789 milljónir dala)

4. The Hunger Games: Catching Fire (772 milljónir dala)

5. Monsters University (744 milljónir dala)

6. Man of Steel (663 milljónir dala)

7. Gravity (652 milljónir dala)

8. Thor: The Dark World (628 milljónir dala)

9. The Croods (587 milljónir dala)

10. World War Z (540 milljónir dala)

Hross í oss er fyrsta leikstjórnarverkefni Benedikts Erlingssonar.

Hross, Laddi og þungarokk

Aðeins sex íslenskar kvikmyndir voru frumsýndar á árinu, þremur færri en í fyrra, og var þeim misvel tekið. Hross í oss, fyrsta kvikmynd Benedikts Erlingssonar, er ótvíræður sigurvegari, bæði þegar skoðaðar eru tekjur af miðasölu og viðtökur gagnrýnenda sem voru gríðarlega góðar. Alls sáu rúmlega 13 þúsund manns myndina og skilaði það tæpum 20 milljónum króna í kassann.

Rúmlega 10 þúsund sáu kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Ófeigur gengur aftur, og skilaði það myndinni um 14,5 milljónum króna í tekjur. Gagnrýnendur voru þó ekkert sérlega hrifnir.

Þeir voru hins vegar yfir sig hrifnir af Málmhaus Ragnars Bragasonar sem var þriðja tekjuhæsta íslenska kvikmyndin, með um 6,8 milljónir króna í tekjur af rúmlega 5.600 seldum miðum.

Þó er rétt að taka fram að miðasala í Bíó Paradís er ekki inni í þessum aðsóknartölum.

Baltasar gerði góða hluti vestanhafs á árinu.mynd/getty

Balti sló í gegn

Kvikmynd Baltasars Kormáks, 2 Guns með þeim Mark Wahlberg og Denzel Washington í aðalhlutverkum, er í 47. sæti yfir tekjuhæstu bandarísku kvikmyndir ársins. Hún aflaði tæplega 132 milljóna dala á heimsvísu og fékk ágætis dóma gagnrýnenda. Óhætt er að segja að Baltasar sé óðum að festa sig í sessi sem poppkornsvænn spennumyndaleikstjóri vestra, en Contraband, kvikmynd hans frá því í fyrra, gekk einnig vel í bíóhúsum.

Nóg er að gera hjá honum á næsta ári og strax eftir áramót hefjast tökur í Nepal á kvikmyndinni Everest. Með aðalhlutverk hennar fara Jake Gyllenhaal, Josh Brolin og John Hawkes. Þá er hann með fangelsismynd á teikniborðinu fyrir Universal-kvikmyndaverið, víkingamynd sem tekin verður hér á landi og Grafarþögn, framhald Mýrinnar eftir Arnald Indriðason.

Endurgerð RoboCop er bönnuð innan þrettán.

Árið framundan

Það verður fullt af kræsingum á boðstólnum fyrir bíóáhugafólk á næsta ári, ekki síst fyrir unnendur ævintýra úr draumaverksmiðju Hollywood. Stiklum á stóru yfir það sem er væntanlegt.

Jack Ryan: Shadow Recruit (janúar)

Gamla Tom Clancy-hetjan fær andlitslyftingu og er að þessu sinni leikin af Chris Pine. Kenneth Branagh leikstýrir.

RoboCop (febrúar)

Endurgerð sígildrar myndar Paul Verhoeven frá 1987. PG-13 stimpillinn veit að vísu ekki á gott.

Need For Speed (mars)

Aaron Paul, sem margir þekkja sem Jesse Pinkman úr þáttunum Breaking Bad, leikur aðalhlutverkið í bíóuppfærslu þessara vinsælu tölvuleikja.

Captain America: The Winter Soldier (apríl)

Undirritaður missti hreinlega stjórn á sér, svo góð þótti honum fyrsta myndin í þessari ofurhetjuseríu. Vonandi veldur framhaldið ekki vonbrigðum.

The Amazing Spider-Man 2 (maí)

Andrew Garfield snýr aftur sem Köngulóarmaðurinn. Til allrar hamingju segja sumir, enda var forveri hans, Tobey Maguire, ekki vinsæll.

How to Train Your Dragon 2 (júní)

Það er pressa á Íslandsvininum Dean DeBlois, leikstjóra myndarinnar, enda þykir fyrri myndin fantagóð. En Barack Obama leist vel á sýnishornið sem hann fékk að sjá.

Jupiter Ascending (júlí)

Wachowski-systkinin hafa ekki gefist upp á vísindaskáldsögunum þó að mynd þeirra, Cloud Atlas, hafi ekki gengið nægilega vel í kvikmyndahúsum á árinu.

The Expendables 3 (ágúst)

Sly Stallone mætir í þriðja sinn með sístækkandi safnhaug sinn af afdönkuðum vöðvatröllum. Það er ekkert víst að þetta klikki.

The Equalizer (september)

Bjargvætturinn gamli, sem áhorfendur Stöðvar 2 muna eflaust eftir frá níunda áratugnum, er nú leikinn af Denzel Washington.

Paranormal Activity 5 (október)

Þessi vinsæla sería er orðin þynnri en obláta, en aðdáendur hennar geta látið sig hlakka til næsta árs. Hvorki meira né minna en tvær Paranormal Activity-myndir eru væntanlegar.

Dumb and Dumber To (nóvember)

Farrelly-bræður hafa enn tröllatrú á heimskingjunum tveimur, sem verða nú aftur leiknir af þeim Jim Carrey og Jeff Daniels. Já, leikarar þurfa líka að borða.

Exodus (desember)

Ridley Scott og Biblían. Þetta getur farið á hvorn veginn sem er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×