Fótbolti

„Við erum lottóvinningurinn“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heimir ásamt Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ, og Lars Lagerbäck.
Heimir ásamt Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ, og Lars Lagerbäck. Mynd/Vilhelm
„Það verður gaman að sjá þetta og skoða höfuðstöðvar FIFA í leiðinni,“ segir Heimir Hallgrímsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Dregið verður um það hvaða þjóðir mætast í umspilsleikjunum um laust sæti á HM í Brasilíu í hádeginu í dag. Heimir er mættur til Zürich í Sviss ásamt Lars Lagerbäck þar sem drátturinn fer fram.

„Það þýðir ekkert að vera stressaður. Það kemur bara það sem kemur,“ segir Heimir. Þeir félagar höfðu enn sem komið er ekki hitt neina af þjálfurum hinna landsliðana.

„Við gistum bara á hóteli hérna í nótt og erum núna að fara að hitta alla. Ég held að það verði smá matur fyrir athöfnina,“ segir Heimir. Hann á enga óskamótherja.

„Við lítum á þetta þannig að við erum lottóvinningurinn sem allir vilja fá. Við sættum okkur við það. Það vilja allir mæta liðinu sem er langneðst á styrkleikalistanum. Það er líka eðlilegt,“ segir Heimir.

Athöfnin í Zürich hefst klukkan 12. Drættinum verða gerð góð skil hér á Vísi auk þess sem fylgst verður með gangi mála á Bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×