Fótbolti

Lagerbäck: Við erum sáttir við mótherjann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lagerbäck á hliðarlínunni í Noregi í síðustu viku.
Lagerbäck á hliðarlínunni í Noregi í síðustu viku. Mynd/Vilhelm
„Það var ljóst að allir andstæðingarnir yrðu erfiðir. Ég hef reynslu gegn Króötum frá því að ég var með Svía,“ sagði Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands, í viðtali á heimasíðu FIFA.com.

„Ég er sammála að við erum litla liðið á pappírnum. Við höfum hins vegar komið nokkrum þjóðum á óvart í undankeppninni,“ sagði Svíinn. Hann er samt ekki svartsýnn.

„Í tveimur leikjum áttu alltaf möguleika. Með getuna og karakter íslensku leikmanna er ég jákvæður. En já, við erum minna liðið,“ sagði Lagerbäck sem var viðstaddur dráttinn í Sviss.

Lagerbäck var spurður að því hvort það væri ókostur að eiga fyrri leikinn heima.

„Ef við höldum hreinu heima í fyrri leiknum er það forskot upp á seinni leikinn. Það er alltaf erfitt að segja fyrir fram.“

Lagerbäck svaraði nokkrum spurningum á heimasíðu KSÍ. Svör hans má sjá hér að neðan.

„Það skipti ekki mestu máli hvaða liði þú mætir í umspili. Það er helst Portúgal sem við hefðum viljað sleppa við. Króatía er með sterkt lið en ég segi að það sé ekki mikill munur á þeim og Grikklandi eða Úkraínu. En svona var drátturinn og við erum sáttir með þann mótherja sem við fengum.”

Króatía var að ráða nýjan landsliðsþjálfara fyrir umspilið. Er það eitthvað sem kemur sér vel eða ekki fyrir okkur?

„Ég held að það skipti ekki máli. Þeir réðu inn mann sem þekkir vel til liðsins og umgjarðarinnar eftir að stjórna yngri landsliðum í Króatíu. Hann þekkir leikmennina vel og ég held að það muni ekki skipta máli í leiknum.”

Ísland byrjar heima en fer svo til Króatíu. Er Lars ánægður með að byrja á heimavelli?

„Sumir myndu segja að það sé betra að byrja heima en svo getur það líka verið gott að byrja úti og ná hagstæðum úrslitum þar og eiga heimaleikinn eftir. Báðir leikirnir verða erfiðir og það skiptir ekki mestu máli hvort við byrjum heima eða úti.”

Að lokum. Hvernig metur Lars möguleika íslenska liðsins?

„Við eigum alltaf möguleika, það höfum við sýnt það í riðlakeppninni. Fyrirfram erum við litla liðið í viðureigninni og þeir eru sterkari á pappírunum en við. En vonandi getum við komið þeim á óvart eins og við höfum gert í keppninni hingað til.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×