Fótbolti

Íslenskur stuðningsmaður missti sig í gleðinni í Ósló

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Ósló.
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Ósló. Mynd/Vilhelm
„Við erum tveimur leikjum frá HM. Hvernig heldurðu að mér líði? Heyrirðu ekki röddina í mér? Ég gef allt, allt fyrir þjóð mína. Ég gef allt.“

Þannig voru viðbrögð stuðningsmanns íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í Ósló síðastliðið þriðjudagskvöld þegar ljóst var að okkar menn væru á leið í umspil. James Montague, fréttamaður hjá BBC, tók stuðningsmanninn tali sem gjörsamlega missti sig.

Aðspurður sagði hann ekki eiga neina óskamótherja í umspilinu.

„Það skiptir engu máli. Ég er svo stoltur. Ég er svo stoltur að það skiptir engu. Við getum staðið uppréttir gegn hverjum sem er,“ sagði stuðningsmaðurinn. Fréttamaður BBC bað stuðningsmanninn um að taka því rólega og kastaði á hann kveðju. Um leið heyrðist stuðningsmaðurinn segja með grátstafina í kverkunum:

„Við erum að fara í umspil.“

Í innslaginu er einnig rætt við Eið Smára Guðjohnsen og Lars Lagerbäck um áfangann í íslenskri knattspyrnusögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×