Fótbolti

Miðasala á landsleikinn hefst vonandi á morgun

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ómar Smárason, leyfis- og markaðsstjóri KSÍ.
Ómar Smárason, leyfis- og markaðsstjóri KSÍ.
KSÍ vonast til að geta hafið miðasölu á landsleikinn á morgun en það mun skýrast í dag hvort það tekst.

Ómar Smárason, leyfis- og markaðsstjóri KSÍ, segir í samtali við fréttastofu að þar sé verið að vinna eins hratt og mögulegt er til að geta hafið söluna sem fyrst.

Fyrst þurfi að greiða úr ýmsum óvissuatriðum, eins og til að mynda tímasetningu leiksins, en um það er samið við sjónvarpsrétthafann sem er RÚV. Þá þarf einnig að fara yfir öryggisatriði eins og aðskilnað stuðningsmanna liðanna.

Þá rignir yfir KSÍ fyrirspurnum frá einstaklingum og fyrirtækjum um miðakaup en sambandið mun ekki taka við pöntunum eða sjá beint um sölu, heldur mun hún fara fram í gegnum midi.is.

Króatíska knattspyrnusambandið mun síðan fá um 5-10 prósent af miðum til sölu hjá sér, um það á einnig eftir að semja. Þá semja styrktaraðilar KSÍ um sætafjölda á landsleiki í sínum samningum við sambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×