Fótbolti

Ekki búið að semja við leikmenn um bónusgreiðslur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákarnir okkar fagna í Noregi á dögunum.
Strákarnir okkar fagna í Noregi á dögunum. Mynd/Vilhelm
Leikmenn karlaliðs Íslands í knattspyrnu hafa átt í viðræðum við Knattspyrnusambandið um bónusgreiðslur takist liðinu að tryggja sér þátttökurétt á HM í Brasilíu næsta sumar.

Strákarnir okkar mæta Króötum í tveimur leikjum um miðjan nóvember. Takist íslenska liðinu að hafa betur samanlagt í leikjunum tveimur, sem fara fram 15. og 19. nóvember, er sæti á HM tryggt. Um leið yrði Ísland fámennasta þjóðin til að komast svo langt.

Ljóst er að KSÍ myndi fá rúmlega einn milljarð króna í tekjur frá Alþjóðknattspyrnusambandinu kæmist liðið til Brasilíu eins og Fréttablaðið fjallaði um á dögunum.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í samtali við Mbl.is að leikmennirnir muni njóta góðs af, líkt og öll knattspyrnuhreyfingin, tækist þeim ætlunarverk sitt.

„Við höfum rætt við leikmenn um bónusgreiðslur ef liðinu tekst að slá Króatana út og munum ganga frá þeim málum ef af verður að liðið komist í lokakeppnina.“

Annars kýs Geir að ræða minna um peningamálin og einbeita sér frekar að íþróttalega þættinum. Best sé að afla teknanna áður en ákveðið sé hvað eigi að gera við þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×