Fótbolti

Rúmur milljarður í húfi fyrir KSÍ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fagnað í Ósló.
Fagnað í Ósló. Mynd/Vilhelm
Tækist íslenska karlalandsliðinu hið ótrúlega, að tryggja sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins, myndi rekstrarumhverfi Knattspyrnusambands Íslands breytast til muna. Enn er mikið verk að vinna en fjárhagslegur ávinningur yrði mikill.

Knattspyrnusambönd þjóðanna 32 sem komast í lokakeppni HM í Brasilíu árið 2014 fá háar fjárhæðir í styrki. Heildarupphæð styrkja verður í takt við þá sem veitt var árið 2010 í Suður-Afríku. Reikna má með því að skiptingin á milli þjóðanna verði með svipuðum hætti.

Liðin sem komust í lokakeppnina árið 2010 fengu eina milljón Bandaríkjadala í undirbúningsstyrk. Þau sem féllu út í riðlakeppninni fengu átta milljónir dala til viðbótar. Níu milljónir dala á gengi dagsins í dag svara til rúmlega eins milljarðs íslenskra króna. Enn hærri upphæðir eru veittar eftir því sem liðin komast lengra.

Krýndir heimsmeistarar fá um 3,6 milljarða króna í sinn hlut.

Til samanburðar var rekstrarkostnaður KSÍ árið 2012 tæpar 800 milljónir króna. Innkoma var aðeins meiri eða um 848 milljónir og því skilaði KSÍ 48 milljóna króna hagnaði. Stærsti tekjuliðurinn er í flokknum styrkir og gjöld eða um fimm hundruð milljónir. Framlag þess flokks myndi þrefaldast tækist okkar mönnum hið ótrúlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×