Innlent

Snjórinn kemur og fer

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Þetta hressa unga fólk tókst á við krefjandi verkefni í snjónum á síðasta vetri.
Þetta hressa unga fólk tókst á við krefjandi verkefni í snjónum á síðasta vetri. Mynd/Vilhelm
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá íbúum höfuðborgarsvæðisins að á ellefta tímanum í morgun byrjaði að snjóa. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er ekki búist við að snjókoman verði langlíf.

„Það myndaðist lægð við Faxaflóa í nótt og það er skýjabakki sem eiginlega fastur yfir höfuðborginni og Reykjanesi sem stendur. Við gerum ráð fyrir að snjókoman vari í nokkrar klukkustundir og gangi svo yfir á Suðurland,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Elín segir að veturinn sé kominn en sér ekki fyrir sér að það snjói fyrir alvöru á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum. „Það hvítnar kannski aðeins jörð í dag og ef hitastig fellur seinni partinn þá gæti hélað aðeins. Það er kuldi í kortunum og afgerandi norðanáttir framundan. Spáin gerir ráð fyrir því að það birtir til um helgina.“

Ekki er gert ráð fyrir að ofankoma dagsins muni valda miklum snjó. Fyrr í október olli snjókoma töfum og umferðaslysum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir ökumenn sem ekki eru búnir að skipta yfir vetradekk ættu að hraða sér enda veturinn kominn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×