Innlent

Allir sjálfstæðismenn í Reykjavík með atkvæðisrétt

Prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík fer fram 16. nóvember.
Prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík fer fram 16. nóvember. Mynd/Valgarður
Allir flokksbundnir sjálfstæðismenn í Reykjavík munu hafa atkvæðisrétt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 2014, sem fram fer þann 16. nóvember næstkomandi.

Vegna ákvörðunar sem tekin var á síðasta fulltrúaráðsfundi, þann 19. september síðastliðinn, um að einungis fullgildir félagsmenn (þ.e. þeir sem greitt hafa félagsgjöld) megi greiða atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 komu upp álitamál sem snéru að því hverjir væru á kjörskrá.

Yfirkjörstjórn Varðar beindi því erindi til stjórnar Varðar og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Á meðal þess sem fram kom í svari miðstjórnar var að líta beri svo á að þeir félagsmenn sem, einhverra hluta vegna, eru ekki inntir eftir greiðslu á félagsgjaldi frá sínum félögum, og teljist þar af leiðandi ekki vera í vanskilum með félagsgjöld, hafi þáttökurétt í prófkjörinu.

Á grundvelli svars miðstjórnar hefur yfirkjörstjórn Varðar ákveðið að þeir félagsmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem ekki eru í vanskilum vegna félagsgjalda séu á kjörskrá. Í samræmi við svar miðstjórnar lítur yfirkjörstjórn Varðar svo á að þótt félagsmaður hafi ekki greitt valkröfu í heimabanka þá sé viðkomandi ekki í vanskilum.  Þar sem um valkvæðar greiðslur er að ræða er ljóst að enginn félagsmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík stendur í vanskilum á þeim.

Frestur til að skila inn framboði til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 2014 rennur út klukkan 16:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×