Innlent

Tíu þúsund króna seðillinn kominn í umferð

Hrund Þórsdóttir skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði tilgang seðilsins að gera seðlanotkun hagkvæmari með því að draga úr fjölda seðla í notkun.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði tilgang seðilsins að gera seðlanotkun hagkvæmari með því að draga úr fjölda seðla í notkun.
Nýi tíu þúsund króna seðillinn var settur í umferð í dag við formlega athöfn í Seðlabankanum. Hann er tileinkaður Jónasi Hallgrímssyni og á seðlinum má finna vísanir í störf hans. Aðallitur seðilsins er blár og á honum er einnig að finna mynd af lóu. Gerð seðilsins er svipuð og þeirra sem nú eru í umferð en öryggisþættir eru fullkomnari. Hönnuðir seðilsins eru Kristín Þorkelsdóttir og Stephen Fairbairn.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði tilgang seðilsins að gera seðlanotkun hagkvæmari með því að draga úr fjölda seðla í notkun en sagði jafnframt að nýi seðillinn væri ekki bara til marks um góðar fréttir, og undir það tekur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Er þetta ekki dapurlegur vitnisburður um verðbólguþróunina?

„Jú og þetta verður kannski líka tilefni til að minna okkur á hvernig peningar rýrna að verðgildi yfir tíma, þegar okkur gengur illa að ná tökum á verðbólgunni. Þannig að við skulum láta þessa útgáfu verða okkur til áréttingar um mikilvægi þess að standa okkur betur í þeim efnum í framtíðinni,“ segir Bjarni.

Þeir sem vilja skoða seðilinn geta nálgast hann í næsta bankaútibúi og á næstunni kemur hann líka í einhverja hraðbanka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×