Enski boltinn

Zabaleta: Hópurinn betri en sá sem vann titilinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Argentínski bakvörðurinn Pablo Zabaleta hjá Manchester City segir leikmannahóp félagsins í ár vera betri en sá sem vann Englandsmeistaratitilinn 2012.

Manchester City hefur unnið alla fjóra heimaleiki sína á tímabilinu og er sex stigum á eftir toppliði Arsenal áður en flautað verður til leiks City og Chelsea á Stamford Bridge klukkan 16 í dag í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Þrátt fyrir að hafa aðeins náð í fjögur stig í fjórum útileikjum á tímabilinu er Zabaleta bjartsýnn á góðan árangur undir stjórn Manuel Pellegrini í vetur.

„Ég held að hópurinn sé betri en sá sem vann titilinn,“ sagði Zabaleta við breska blaðið the Sunday People.

Nokkrir leikmenn hafa farið og aðrir stórir leikmenn komið í staðin. Carlos Tevez og Mario Balotelli léku stórt hlutverk í meistaraliðinu og líka Nigel de Jong og Adam Johnson.

„En núna erum við með að minnsta kosti tvo leikmenn í hverri stöðu. Jafnvægið í liðinu er mikið. Stjórinn hefur marga valkosti og það er jákvætt.

„Nýju leikmennirnir koma allir með eitthvað nýtt inn í liðið. Alvaro Negredo, Jesus Navas og Fernandinho hafa aðlagast mjög fljótt og látið mikið að sér kveða nú þegar.

„Stevan Jovetic og Martin Demichelis hafa ekki leikið marga leiki en þeir munu fá sín tækifæri. Þessir nýju leikmenn hafa gert liðið enn sterkara,“ sagði Zabaleta sem hlakkar til að eiga við Chelsea í dag.

„Það er aldrei auðvelt að fara á Stamford Bridge en við munum reyna að sækja til sigurs. Okkur gekk vel gegn Chelsea á síðasta tímabili en það telur ekkert núna því Jose Mourinho er kominn aftur og það breytir liðinu mikið þó þeir séu með nánast sömu leikmenn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×