Fótbolti

Eiður Smári byrjaði | Góður útisigur hjá AZ

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Eiður Smári var í byrjunarliðinu í dag
Eiður Smári var í byrjunarliðinu í dag FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Club Brugge sem tapaði 2-0 fyrir Genk í belgísku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Á sama tíma lagði AZ PEC Zwolle á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni 2-0.

Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Jóhannsson voru báðir í byrjunarliði AZ í hollensku deildinni í dag. Jóhanni Berg var skipt af leikvelli á 63. mínútu og Aroni á 74. mínútu.

AZ komst yfir á 37. mínútu með sjálfsmarki en Nick Viergever skoraði seinna markið á 53. mínútu og þar við sat.

AZ komst með sigrinum upp fyrir PEC Zwolle. AZ er með 19 stig í þriðja sæti en með jafn mörg stig og Twente og Ajax sem eru í efstu tveimur sætunum. Zwolle er stigi á eftir líkt og PSV.

Jelle Vossen kom Genk yfir gegn Club Brugge á 42. mínútu. Eiður Smári lék fyrstu 64. mínútur leiksins en þetta var í fjórða sinn sem hann er í byrjunarliði liðsins á leiktíðinni.

Sex mínútum fyrir leikslok gerði Khaleem Hyland út um leikinn og tyggði Genk mikilvæg stig í toppbaráttunni.

Genk og Club Brugge eru nú jöfn að stigum í öðru til þriðja sæti deildarinnar með 26 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×