Enski boltinn

Messan: Báru saman markið frá Bjarna um árið og atvikið um helgina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðmundur Benediktsson, Hjörvar Hafliðason og Bjarni Guðjónsson fóru vel í gegnum umferðina í  ensku úrvalsdeildarinnar í Messunni í gær.

Leroy Fer, leikmaður Norwich, skoraði mjög svo óheiðarlegt mark gegn Aroni Einari Gunnarssyni og félögum í Cardiff.

Leikmaður Cardiff sparkaði boltanum útaf eftir að leikmaður Norwich hafði þurft aðhlyningu. Því næst tók Ricky van Wolfswinkel, leikmaður Norwich, innkast sem rataði beint í lappirnar á Leroy Fer sem renndi honum í autt netið.

Allt varð vitlaust og urðu leikmenn Cardiff eðlilega mjög svo reiðir. Það sem bjargaði málinu var að dómari leiksins hafði ekki flautað innkastið á og því þurfti að endurtaka það.

„Markið sem ég skoraði var kannski ekki af sömu tegund, það var einfaldlega hrikalega léleg spyrna hjá mér sem endaði óvart í markinu,“ sagði Bjarni Guðjónsson í þættinum í gær.

Þeir félagar í Messunni rifjuðu upp atvik sem gerðist í íslensku deildinni fyrir allnokkrum árum þegar Bjarni Guðjónsson, þáverandi leikmaður ÍA, skoraði mark við svipaðar aðstæður.

Hér að neðan má sjá umræðuna drengjanna um mörkin tvö.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×