Enski boltinn

Fer Januzaj sömu leið og Paul Pogba?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adnan Januzaj.
Adnan Januzaj. Mynd/AP
Beppe Marotta, yfirmaður íþróttamála hjá ítalska félaginu Juventus, skilur ekki af hverju Manchester United er að taka áhættuna á því að missa ungstirnið Adnan Januzaj. Samningur Januzaj rennur út næsta sumar og það er mikill áhugi á leikmanninum meðal stærri klúbba sunnar í Evrópu.

Juventus er eitt af félögunum sem hafa áhuga á Adnan Januzaj en þessi 18 ára strákur skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 endurkomusigri á Sunderland um síðustu helgi. Juventus hefur þegar "stolið" einum ungum strák frá Old Trafford en þeir plötuðu franska miðjumanninn Paul Pogba til sín á sínum tíma.

„Ef þeir óttast það að lenda aftur í sömu stöðu og með Paul Pogba þá eru þær áhyggjur réttmætar," sagði Beppe Marotta við ítalska fjölmiðla.

„Það er erfitt að skilja af hverju þeir hafa ekki klárað nýjan samning við leikmanninn þegar hann á bara átta mánuði eftir af samningi sínum. Januzaj er hæfileikaríkur leikmaður sem á mikla framtíð fyrir sér," sagði Beppe Marotta.

Adnan Januzaj kom til Manchester United frá Anderlecht í mars 2011 en er nú að fá sín fyrstu tækifæri með aðalliði félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×