Fótbolti

Drogba og félagar með annan fótinn á HM í Brasilíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba.
Didier Drogba. Mynd/AFP
Fílabeinsströndin og Búrkína Fasó fögnuðu sigri í dag í fyrri leikjunum sínum í umspili Afríkuþjóða um sæti á HM í Brasilíu á næsta ári en eru engu að síður í ólíkri stöðu. Fílabeinsströndin vann þriggja marka sigur en Búrkína Fasó fékk á sig tvö mörk á heimavelli á móti Alsír.

Fílabeinsströndin er með annan fótinn á HM 2014 eftir 3-0 heimasigur á Senegal. Það lið sem hefur betur í tveimur leikjum, heima og að heiman, tryggir sér farseðilinn til Brasilíu.

Didier Drogba skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu strax á fimmtu mínútu leiksins og staðan var orðin 2-0 á 14. mínútu eftir að Senegalar skoruðu sjálfsmark. Salomon Kalou, fyrrum leikmaður Chelsea sem spilar núna með Lille, skoraði þriðja markið á 49. mínútu.

Lærisveinar Alain Giresse í Senegal þurfa því að vinna upp þriggja marka forskot í seinni leiknum sem fer fram í Senegal eftir viku.

Búrkína Fasó vann 3-2 sigur á Alsír í fyrri leik liðanna sem fór fram í Ouagadougou í Búrkína Fasó í kvöld. Aristide Bancém, leikmaður Fortuna Düsseldorf, skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu aðeins fjórum mínútum fyrir leikslok.

Búrkína Fasó hefur aldrei komist á HM en komst alla leið í úrslitaleikinn á Afríkumótinu fyrr á þessu ári. Alsír var með á HM í Suður-Afríku 2010.

Jonathan Pitroipa og Djakaridja Koné komu liði Búrkínu Fasó tvisvar yfir en Sofiane Feghouli og Carl Medjani jöfnuðu í tvígang. Mörkin þeirra gæti reynst afar dýrmæt í seinni leiknum í Alsír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×