Enski boltinn

Moyes vill ekki að leikmenn sýni leikaraskap

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David Moyes stýrði liði sínu til sigurs í gær.
David Moyes stýrði liði sínu til sigurs í gær. Nordicphotos/Getty
David Moyes, stjóri Manchester United, hefur varað leikmenn sína við því að dýfa sér í leikjum liðsins. Ashley Young, kantmaður liðsins, fékk spjald í 2-0 sigri á Crystal Palace í gær fyrir leikaraskap.

„Ég vil ekki að leikmenn mínir kasti sér í jörðina. Ég kann ekki að meta það,“ sagði Moyes eftir leikinn. Hann sagði varnarmanninn Dikgacoi hafa sett fót sinn út en Young hefði búið til snertinguna.

Jon Moss dæmdi hins vegar vítaspyrnu skömmu síðar þegar Young féll í teignum eftir viðskipti við Dikgacoi. Varnarmaðurinn var rekinn af velli og United komst yfir úr vítaspyrnunni.

Sýndist sitt hverjum um niðurstöðuna en atvikið má sjá hér.

Moyes viðurkenndi að hann kenndi í brjósti um Ian Holloway, stjóra Crystal Palace.

„Ég kann ekki við regluna sem segir að ef síðasti varnarmaður brjóti þá sé það sjálfkrafa rautt spjald,“ sagði Moyes.

Reglan snýr raunar að því að upplögðu marktækifæri sé rænt af leikmanni andstæðinganna. Ekki þarf alltaf að vera svo að varnarmaðurinn þurfi að vera sá síðasti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×