Fótbolti

Spurði sjálfan sig að því hvort hann væri nógu góður

„Draumaklúbburinn er Manchester United en ég er líka með augun á þýsku, spænsku og ítölsku deildinni. Það eru allt deildir sem ég get séð mig spila í,“ segir landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason.

Alfreð, sem spilar með Heerenveen, vonast til þess að komast að hjá toppliði í einu af fjórum stærstu deildum í Evrópu. Hann ber þjálfara sínum, goðsögninni Marco van Basten, vel söguna.

„Hann hefur reynst mér frábærlega. Ég held að það sjáist á tölfræði minni. Hann gefur mér frjálsræði inni á vellinum innan agaðra marka. Þannig líður mér best.“

Alfreð segist eiga háleita drauma eins og allir.

„Þeir verða að vera það til að geta komist lengra. Ef ég myndi hugsa of mikið um slúðrið yrði ég geðveikur. Galdurinn er að lifa í núinu,“ segir Alfreð. Hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt á þremur árum í atvinnumennsku,

„Maður eyddi mörgum kvöldstundum, horfði á vegginn og spurði sjálfan sig hvort maður væri ekki nógu góður eða hvað málið væri,“ segir Alfreð um tíma sinn hjá Lokeren í Belgíu. Hann segist ekki eiga í miklum erfiðleikum með að höndla velgengnina.

„Að fara í gegnum svo erfiða tíma snemma á ferlinum kenndi mér að höndla velgengni. Ég tek henni með jafnaðargeði. Það er galdurinn til þess að endast sem lengst í þessu á hæsta stigi. Að taka mótbyr og meðbyr með nokkurn veginn sama andliti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×