Enski boltinn

Söguleg mörk hjá Lampard

Lampard fagnar fyrra marki sínu í dag. Þá jafnaði hann markametið.
Lampard fagnar fyrra marki sínu í dag. Þá jafnaði hann markametið. Mynd / Getty Images
Frank Lampard bætti markamet Chelsea og svo gott sem tryggði liðinu sæti í Meistaradeildinni næsta vetur með tveimur mörkum í 1-2 útisigri á Aston Villa í dag.

Tottenham getur jafnað Chelsea að stigum en markamunurinn á milli liðanna er mikill og Meistaradeildarsætið því næstum komið.

Villa byrjaði leikinn betur og Christian Benteke kom heimamönnum yfir snemma leiks. Hans 14. mark á árinu og hann hefur skorað langmest í deildinni á þessu ári. Næsti maður er þremur mörkum á eftir.

Það blés ekki byrlega fyrir Chelsea undir lok fyrri hálfleiks er Brasilíumaðurinn Ramires lét reka sig af velli eftir að hafa fengið tvö gul spjöld.

Hetjan Benteke varð síðan skúrkur er hann lét reka sig af velli rúmum hálftíma fyrir leikslok. Benteke sparkaði þá í John Terry og var vikið af velli.

Chelsea var fljótt að nýta sér þessa stöðu og Frank Lampard jafnaði leikinn skömmu síðar.

Sögulegt mark hjá Lampard því hann var að jafna markamet Chelsea. Lampard var þarna kominn með 202 mörk eða  jafnmörg og Bobby Tambling.

Lampard er einnig orðinn fjórði markahæsti leikmaðurinn í sögu úrvalsdeildarinnar með 165 mörk. Hann er eini miðjumaðurinn á topp tíu listanum.

Chelsea vildi fá mark skömmu síðar er boltinn dansaði á línunni. Aðstoðardómarinn ekki sammála en tæpt var það.

Lampard bætti síðan markamet Chelsea tveim mínútum fyrir leikslok. Frábært samspil hjá Chelsea endaði með því að Lampard skoraði. Hann lagðist á hnén og þakkaði fyrir sig.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×