Enski boltinn

Öskubuskuævintýri Wigan fullkomnað

Wigan varð í dag enskur bikarmeistari í fyrsta skipti. Liðið skellti þá milljónaliði Man. City í úrslitaleik á Wembley. Ben Watson skoraði eina mark leiksins. Þetta eru ein óvæntustu úrslit í sögu keppninnar en Wigan er við það að falla úr ensku úrvalsdeildinni.

Fyrri hálfleikur var nokkuð líflegur og Wigan beit meira frá sér en búist var við. Fékk sín færi, rétt eins og City, en hvorugu liðinu tókst að skora.

City gekk verr að opna sterka vörn Wigan í síðari hálfleik og leikurinn í nokkru jafnvægi. Wigan átti sínar sóknarlotur en allt kom fyrir ekki.

Sex mínútum fyrir leikslok varð vendipunktur í leiknum. Zabaleta var rekinn af velli sem var hárréttur dómur. Wigan hóf að pressa og sú pressa bar árangur í uppbótartíma.

Þá skallaði Ben Watson hornspyrnu glæsilega í netið. Hann var þá tiltölulega nýkominn inn á völlinn. Þetta mark reyndist vera sigurmark leiksins og fögnuður Wigan var fölskvalaus í leikslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×