Enski boltinn

Fráfall mágkonunnar hafði úrslitaáhrif á ákvörðun Ferguson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson, fráfarandi knattspyrnustjóri Manchester United, greindi frá því eftir leik í gær að hann hefði ákveðið að hætta fyrir um fimm mánuðum síðan.

„Það var í kringum síðustu jól,“ sagði Ferguson eftir 2-1 sigur sinna manna á Swansea í gær. Það var síðasti leikur Ferguson á Old Trafford og fékk liðið enska meistarabikarinn afhentan eftir leik.

„Hlutirnir breyttust þegar að systir Cathy dó,“ sagði Ferguson enn fremur en Cathy er eiginkona Ferguson. „Hún er því einangruð en hún hefur verið höfuð fjölskyldunnar í 47 ár, hugsað um þrjá syni okkar og fórnað sjálfri sér fyrir mig.“

„Hún á barnabörnin sín og þau elska hana. En hún hefur misst systur sína og besta vin sinn. Það hafði mikið að segja um mína ákvörðun.“

„Ég tel það líka mikilvægt að hætta sem sigurvegari. Það skiptir miklu máli í þessu félagi. Það var það eina sem ég vildi vera hjá þessu félagi - sigurvegari.“

Ferguson vildi halda ákvörðun sinni leyndri lengur en sögusagnir fóru á kreik á þriðjudagskvöldið. Þá var ekki hægt að þegja lengur þar sem hann vildi greina leikmönnum liðsins frá ákvörðun sinni sjálfur.

„Ég var næstum búinn að missa þetta út úr mér við fjölskylduna. Við létum syni okkar vita í mars en bróðir minn fékk að vita þetta á þriðjudaginn.“

Rio Ferdinand skoraði sigurmark United undir lok leiksins. Ferguson fannst það viðeigandi.

„Mörk á lokamínútunum. Ég elska þau,“ sagði hann og brosti. „Við höfum stundum tapað leikjum á lokamínútunum en það er allt saman hluti af sögunni líka.“

„Mér finnst erfitt að horfa til baka en ég hef tíma til þess núna. Líklega er mikilvægasti titillinn sá fyrsti sem við unnum árið 1993. Þá opnaðist möguleikinn á fleiri titlum.“

Ferguson verður nú í stjórn félagsins og í hlutverki sendiherra. En hann getur gefið sér tíma fyrir aðra hluti á efri árunum.

„Franskan mín er ekki svo slæm en ég er ekki nógu góður á píanóið. Kannski fer ég í kennslu ef ég hef tíma til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×