Enski boltinn

Gylfi hélt lífi í Meistaradeildardraumi Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður og tryggði Tottenham 2-2 jafntefli á móti Chelsea á Stamford Bridge í gríðarlega mikilvægum leik í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Leikurinn var frábær skemmtun, bauð upp á fjögur flott mörk og hraðinn var það mikill að leikmenn voru nánast búnir á því á lokamínútunum.

Chelsea hefði nánast tryggt sér sæti í Meistaradeildinni með sigri en hefur nú "bara" tveggja stiga forskot á Arsenal (4. sæti) og þriggja stiga forskot á Tottenham (5. sæti) þegar tvær umferðir eru eftir. Fjögur efstu sætin skila sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Tottenham mátti alls ekki tapa þessum leik og sigur hefði gert mikið fyrir liðið en nú verða Gylfi og félagar að treysta á hagstæð úrslit í síðustu tveimur umferðunum.

Chelsea var með mikla yfirburði í fyrri hálfleiknum og komst tvisvar sinnum yfir eftir að Emmanuel Adebayor hafði í millitíðinni jafnað metin með frábæru marki.

Gylfi Þór kom inn á sem varamaður fyrir Aaron Lennon á 63. mínútu leiksins og var búinn að skora á 80. mínútu. Leikur Tottenham breyttist heldur betur til hins betra eftir að íslenski landsliðsmaðurinn kom inn á völlinn.

Gylfi skoraði markið sitt með hnitmiðuðu skoti eftir að hafa fengið skemmtilega hælsendingu frá Emmanuel Adebayor.

Tottenham sótti stíft eftir jöfnunarmarkið en tókst ekki að tryggja sér sigurinn. Gareth Bale fékk aukaspyrnu á kjörstað í uppbótartíma en náði ekki góðu skoti.

Það er hægt að sjá mark Emmanuel Adebayor með því að smella hér fyrir ofan.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×