Fótbolti

Meistaradeildin: Sigrar hjá liðunum í undanúrslitum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna marki Cesc Fabregas í gær.
Leikmenn Barcelona fagna marki Cesc Fabregas í gær. Getty Images
Öll fjögur liðin sem leika til undanúrslita í Meistaradeild Evrópu gerðu góða hluti um helgina. Þýsku liðin Dortmund og FC Bayern leika gegn spænsku liðunum Real Madrid og Barcelona í undanúrslitum sem hefjast í vikunni.

FC Bayern lék sér að liði Hannover á útivelli og vann 1-6. Mario Gomez skoraði tvö mörk líkt og Cladio Pizarro og Frank Ribery skoruðu einnig eitt mark. Fyrsta mark leiksins var sjálfsmark heimamanna. Dortmund vann 2-0 heimasigur gegn Mainz þar sem Marco Reus og Robert Lewandowski voru á skotskónum.

Real Madrid hafði betur gegn Real Betis á heimavelli 3-1. Mesut Özil skoraði tvö mörk fyrir Madrid og Karim Benzema eitt. Á sama tíma lagði Barcelona Levente af velli á heimavelli sínum, 1-0. Cesc Fabregas skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu undir lok leiks.

Mario Gomez skoraði tvívegis í gær.Getty Images
Ljóst er að það eru spennandi viðureignir framundan í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. FC Bayern mætir Barcelona á heimavelli sínum í Munchen á þriðjudag. Á miðvikudag eigast Dormund og Real Madrid við á Westfalenstadion vellinum í Dortmund.

Lionel Messi hefur verið tæpur vegna meiðsla að undanförnu en talið er öruggt að hann verði í leikmannahópi Barcelona á þriðjudag. FC Bayern fór í úrslit á síðasta ári en tapaði þá fyrir Chelsea í úrslitaleik sem fram fór í Munchen. Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer fram þann 25. maí á Wembley leikvanginum í London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×