Innlent

Ekkert hæft í kjaftasögunum: Sigmundur á ekki barn í lausaleik

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Sigmundur segir kjaftasögurnar oft erfiðari fyrir fjölskyldur stjórnmálamanna heldur en stjórnmálamanninn sjálfan.
Sigmundur segir kjaftasögurnar oft erfiðari fyrir fjölskyldur stjórnmálamanna heldur en stjórnmálamanninn sjálfan. Mynd/Samsett mynd
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir kjaftasögurnar komnar í nýjar hæðir í samtali við Sigurjón M. Egilsson í Sprengisandi í morgun. „Ekki bara ég. Ráðherrar síðustu ríkisstjórnar fengu að finna fyrir því og aðrir þingmenn. Menn nýti þetta sem tæki í pólitísku baráttunni.“ 

Hann fjallaði um sögusagnir þess efnis að hann hefði átt barn í lausaleik. „Það er ekki langt síðan það var hringt inn á að minnsta kosti nokkrar fréttastofur, jafnvel allar, ítrekað, til þess að reyna að dreifa sögu um það að ég ætti von á barni með einhverri konu annarri en konunni minni,“ sagði Sigmundur. Hann sagði að hamast hefði verið í sögunni á tímabili en að auðvitað væri ekkert hæft í henni. „Svo er þessi saga byrjuð að dúkka upp aftur og búið að skipa í hlutverk konunnar. Ég hef reyndar heyrt nokkrar útgáfur af því.“ 

Sigmundur fjallaði einnig ítarlega um þá gagnrýni sem hann fékk þegar hann tók sér frí í mánuðinum. Sigurjón M. Egilsson, stjórnandi þáttarins, spurði hvort forsætisráðherrann væri bitur yfir umræðunni en Sigmundur þvertók fyrir það. „Það sem fer í taugarnar á mér er að það skuli vera tíma eytt í þessa vitleysu. Að stjórnmálaumræðan skuli alltaf snúast um svona brellur og svona endemis rugl.“

Sigmundur sagði jafnframt að mögulega væri hörð gagnrýni á Framsóknarflokkinn að undanförnu afleiðing stöðu hans á miðjunni. „Eftir síðustu kosningar þar sem að Framsóknarflokkurinn vinnur mikinn sigur, þá eru sumir sem eru vinstra megin við hann og kannski hægra megin líka, sem eru ósáttir við það, finnst þetta ekki hafa verið rétt niðurstaða. Sú gremja beinist því fyrir vikið mikið að Framsóknarflokknum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×