Innlent

Tónlistarmenn gefa meira en þeir fá

Heimir Már Pétursson skrifar
Félag tónlistar- og textahöfunda, FTT, er þrjátíu ára um þessar mundir og fagnaði því með ráðstefnuhaldi í Hörpu um helgina. Jakob Frímann Magnússon formaður félagsins segir framlag popptónlistarfólks til þjóðarbúskapsins mikið. Þannig séu um 200 tónleikar með íslenskum tónlistarmönnum í útlöndum í hverjum mánuði.

Það sé hins vegar orðið erfiðara að lifa af tónleikahaldi og plötusala hafi dregist saman með þróun interntsins.

„Við erum með ansi stóran hluta af þessu 200 milljarða hagkerfi sem er í skapandi greinum á Íslandi. Þar eru tónlistar- og kvikmyndagerðarmenn langhæstir. Vaxandi tekjur eru að koma frá útlöndum því bæði sala og tónleikahald þar er að skila ábata sem þjóðarbúið nýtur góðs af,“ segir Jakob Frímann.

Það skjóti því skökku við að eftir áralanga baráttu hafi verið ákveðið að taka fyrsta framlag í útflutningssjóð tónlistar út af fjárlögum næsta árs.

„Að sjálfsögðu finnst okkur það óviðeigandi að taka lítinn 20 milljón króna sjóð sem búið er að berjast fyrir í 15 ár og skera hann fyrst allan niður, í ljósi þess starfs sem verið er að vinna. Við treystum því að þetta verði endurskoðað og heildarmyndin verði látin njóta sannmælis,“ segir Jakob Frímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×