Fótbolti

Þurftu að kaupa treyjurnar sínar af götusölum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einn af leikmönnum Santa Fe.
Einn af leikmönnum Santa Fe. Mynd/Skjáskot
Leikmenn kólumbíska knattspyrnuliðsins Independiente Santa Fe neyddust til þess að spila í eftirlíkingum af búningum sínum gegn Boyaca Chico um helgina.

Þannig er mál með vexti að búningastjóri liðsins gleymdi varabúningum liðsins heima. Aðaltreyja liðsins er of lík treyju Boyaca og því ljóst að liðið gæti ekki spilað í aðalbúningnum. Heimaliðið, sem er erkifjandi Independiente, neitaði að spila í varabúningum sínum til þess að leysa málið. Því voru góð ráð dýr.

Búningastjórinn leitaði ekki langt yfir skammt. Hann hélt út á götu, keypti eftirlíkingar af varabúningi liðsins hjá götusölum en hver treyja kostaði andvirði um 800 íslenskra króna. Merkja þurfti treyjurnar með númeri og nafni. Til þess var notaður rauður tússpenni. Óþarfi að flækja hlutina.

Svo fór að Independiente Santa Fe vann 2-0 sigur í leiknum. Talsmaður liðsins, Pablo Garcia, sagði vandræðin í aðdraganda leiksins hafa aukið á sigurgleðina.

„Við erum í skýjunum þar sem Chico vildi ekki hjálpa okkur að leysa málið. Þeir reyndu að nýta sér vandræði okkar,“ sagði Garcia við Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×