Enski boltinn

Agüero er ánægður með lífið hjá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sóknarmaðurinn Sergio Agüero segir að hann sé ánægður hjá Manchester City og hafi ekki í huga að finna sér nýtt lið þó svo að hann hafi verið orðaður við Real Madrid á Spáni.

Agüero kom til City frá Atletico Madrid fyrir metfé síðastliðið sumar og hefur skorað 26 mörk á tímabilinu. Þó hefur verið fullyrt í fjölmiðlum ytra að hann sé óánægður í Manchester.

„Nei, nei. Alls ekki. Sannleikurinn er sá að ég er afar hamingjusamur hér. Ég er ánægður með mína liðsfélaga og allt starfsliðið hjá félaginu," sagði Agüero í viðtali við fjölmiðla á Englandi.

„Það eina sem ég þarf að gera er að njóta þess að spila knattspyrnu. Staðreyndin er sú að ég veiti sjaldan viðtöl. Stundum þarf ég að koma fram til að leiðrétta eitthvað sem hefur verið staðhæft en ég get ekki brugðist við öllu því sem er skrifað um mig," bætti hann við.

„Ég ítreka aðeins að ég er ánægður hér. Það er ýmislegt reynt til að koma mér úr jafnvægi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×