Innlent

Ákærður fyrir nauðgun og brennu

Maðurinn neitar alfarið sök.
Maðurinn neitar alfarið sök.
Ríkissaksóknari hefur ákært ríflega þrítugan mann frá Höfn í Hornafirði fyrir brennu og nauðgun. Brotin sem hann er ákærður fyrir voru framin með um árs millibili. Hann neitar allri sök.

Manninum er gefið að sök að hafa lagt eld að geymsluhúsnæði í bænum í september 2010. Geymslan brann til grunna.

Töluverðan tíma tók að vinna svokallaða almannahættuskýrslu fyrir eldsvoðann, sem skýrir af hverju ekki er ákært fyrir brotið fyrr en nú. Niðurstaða rannsóknarinnar var að eldurinn hefði skapað almannahættu og því er ákært fyrir brennu. Við slíku broti liggur minnst tveggja ára fangelsisvist.

Maðurinn er svo sakaður um að hafa nauðgað konu á staðnum í fyrrahaust. Hann neitar því alfarið, og neitar því jafnframt að hafa kveikt í geymslunni.

Aðalmeðferð verður í málinu fyrir Héraðsdómi Austurlands á Höfn í Hornafirði 14. maí.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×