Innlent

Vinir Elliðaárdals stofna samtök

Á níunda tug manna sótti stofnfundinn í félagsheimili Orkuveitunnar.
Á níunda tug manna sótti stofnfundinn í félagsheimili Orkuveitunnar.
Hátt í níutíu manns mættu á stofnfund Hollvinasamtaka Elliðaárdals í félagsheimili Orkuveitu Reykjavíkur í dalnum í fyrrakvöld.

Aðdragandinn var sá að hverfisráð Breiðholts og Árbæjar efndu til fundar um málefni dalsins í haust og niðurstaða hans varð sú að þörf væri á félagi um þessa „mestu náttúruperlu Reykvíkinga,“ eins og Elliðaárdalurinn er kallaður í tilkynningu frá samtökunum.

Á fundinum rakti sagnfræðingurinn Stefán Pálsson sögu Elliðaárdalsins og Björn Axelsson, frá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar, fór yfir drög að framtíðarskipulagi svæðisins.

Hverfisráð Breiðholts og Árbæjar færðu samtökunum jafnframt fimmtíu þúsund króna styrk hvort um sig og þær fréttir að lénið ellidaardalur.is hefði verið tekið frá fyrir samtökin.

Í lok fundar var kosið í stjórn samtakanna, og í hana völdust Alda M. Magnúsdóttir, Anna Sif Jónsdóttir, Guðbrandur Benediktsson, Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Theódórsdóttir, Halldór Páll Gíslason og Stefán Pálsson. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×