Fótbolti

PSV Eindhoven vann AZ með marki í uppbótartíma

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tim Matavz  gerði sigurmark PSV í leiknum.
Tim Matavz gerði sigurmark PSV í leiknum. Mynd. / Getty Images
PSV Eindhoven gerði sér lítið fyrir og vann AZ Alkmaar, 3-2, og í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en PSV skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok.

Jermaine Lens kom PSV Eindhoven yfir í upphafi leiksins en AZ Alkmaar skoruðu tvö næstu mörk leiksins. Þeir Roy Beerens og Jozy Altidore gerði sitt markið hvor í fyrri hálfleiknum og því var staðan 2-1 í hálfleik.

Það leit allt út fyrir það að AZ Alkmaar væri að tryggja sér stigin þrjú og þar með jafna Ajax að stigum í deildinni. Jermaine Lens, leikmaður PSV Eindhoven, var ekki á þeim buxunum en hann náði að jafna metin um fimmtán mínútum fyrir leikslok.

Þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma skoraði síðan Tim Matavz sigurmarkið í hádramatískum leik og magnaður sigur PSV Eindhoven staðreynd.

Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn fyrir AZ.

AZ Alkmaar er því með 58 stig, þremur stigum á eftir Ajax sem á leik til góða og útlitið orðið heldur dökkt fyrir AZ. PSV hefur 57 stig í fjórða sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×