Enski boltinn

Leikmaður Blackburn neitaði að spila í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Givet fagnar marki fyrr á tímabilinu.
Givet fagnar marki fyrr á tímabilinu. Nordic Photos / Getty Images
Gael Givet neitaði að spila með Blackburn gegn Swansea fyrir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Swansea vann leikinn örugglega, 3-0, en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fyrsta mark leiksins með glæsilegu skoti.

Steve Kean staðfesti eftir leikinn að Givet hafi ekki verið reiðubúinn að spila leikinn.

„Það var augljóst af hugarfari hans að dæma að hann var ekki í neinu standi til að spila í dag eða vera á bekknum," sagði Kean við fjölmiðla eftir leikinn í dag.

„Ég mun því ræða við hann betur síðar. Ef viðhorf hans breytist til hins betra þá er það hið besta mál en í dag var hann ekki reiðubúinn að spila."

„Aðrir leikmenn, svo sem David Dunn og Bradley Orr, eru reiðubúnir að spila þrátt fyrir meiðsli og við þurfum á leikmönnum að halda sem eru tilbúnir að leggja allt á sig fyrir félagið."

Talið er líklegt að Givet verði vegna þessa sektaður af félaginu en Frakkinn spilaði síðast með liðinu í 7-1 tapi þess fyrir Arsenal í byrjun febrúar.

Blackburn er í næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 34 leiki og eru þremur stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×