Innlent

Humperdinck: "Held huga mínum hreinum fyrir keppni"

Hjartaknúsarinn Engelbert Humperdinck sem keppir fyrir Bretlands hönd í Eurovision þetta árið veit ekki hvort að Jónsi og Greta Salóme séu sterkir keppinautar - hann kýs frekar að einbeita sér að sínum eigin flutningi.

Hinn 75 ára gamli Engelbert Humperdinck hefur brætt mörg kvennahjörtu í gegnum tíðina með ástarsöngvum og hver veit nema flutningur hans á laginu Love Willl Set you Free í Eurovision þetta árið eigi eftir að fá einhverjar til að kikkna í hnjánum.

„Ég vona að Íslendingar verði hrifnir af því sem ég geri því í því er mikil dýpt

og miklar tilfinningar og ég vona að þeir finni það þegar ég kem fram á sviðinu," segir Humperdinck.

Bretar eru hrifnir af framlagi sínu í ár en lag Humperdincks fór beint á topp vinsældarlista Amazon.

„Ég held að lagið höfði til fjöldans því á tónleikaferðalagi mínu í Bandaríkjunum hef ég flutt lagið og í hvert skipti hefur því verið tekið fagnandi."

En telur þessi gamli jaxl Íslendinga vera keppinauta sína? „Ekki enn. Veistu hvað ég geri? Ég held huga mínum hreinum þangað til í síðustu vikunni

og þá ætla ég að spila öll lögin til að sjá við hvað ég er að keppa. En núna vil ég einbeita mér að flutningi mínum og að mínu lagi."

Þessi reynslubolti veit upp á hár hvernig hann mun líta út á sviðinu í Bakú og sagði fréttamanni að búa sig undir: „Glæsibrag, elskan mín, glæsibrag."

Hægt er að sjá Humperdinck flytja lag sitt hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×