Innlent

Ríkissaksóknari rannsakar leka

Einar Marteinsson er ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um árásina.
Einar Marteinsson er ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um árásina.
Ríkissaksóknari rannsakar nú hvort yfirvöld hafi lekið málsgögnum úr hrottalegu líkamsárásarmáli til fjölmiðla. Ástæðan er umfjöllun DV um mál sem kennt hefur verið við Hells Angels í fjölmiðlum.

Ráðist var á konu á heimili hennar í desember síðastliðnum og henni misþyrmt hrottalega. Fimm manns hafa verið ákærðir fyrir árásina, þeirra á meðal Einar Marteinsson, sem þá var leiðtogi Hells Angels.

DV fjallaði um málið um miðjan mars og birti þá orðréttar vitnaskýrslur auk ljósmynda sem rannsakendur höfðu tekið á vettvangi glæpsins. Gögnin voru ekki opinber og ekki kom fram hvaðan þau bárust miðlinum.

Það var verjandi eins sakborninganna í málinu sem kærði lekann til Ríkissaksóknara og fór fram á rannsókn. „Það er augljóst að einhver hefur lekið gögnunum til fjölmiðla. Ég kærði þetta til Ríkissaksóknara og óskaði eftir rannsókn á þessu,“ segir verjandinn Guðmundur St. Ragnarsson.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfestir að málið hafi verið tekið til rannsóknar. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×