Innlent

Köfunarslys í Silfru: Ástand kafarans eftir atvikum gott

Konan sem slasaðist við köfun í Silfru á Þingvöllum um klukkan eitt í dag liggur á gjörgæsludeild Landspítalans. Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni fór hún háþrýstimeðferð í sérstökum þrýstiklefa eftir að hún kom á sjúkrahúsið með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag. Ástand hennar er eftir atvikum gott. Konan, sem er erlendur ferðamaður, er á miðjum aldri.

Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins en konan var á að minnsta kosti 12 metra dýpi þegar slysið varð. Talið er hún hafi fengið köfunarveikina, svokölluðu. Þegar slysið varð var þyrlan send á vettvang en læknir sem var staddur í nágrenninu veitti henni aðstoð áður en sjúkraflutningarmenn komu á staðinn. Hún andaði eftir slysið en var með skerta meðvitund.

Silfra er einn vinsælasti köfunarstaður á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×