Fótbolti

Þóra: Ég held að þær séu skíthræddar við okkur

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Íslenska kvennalandsliðinu nægir jafntefli á móti Noregi á Ullevaal-leikvanginum í Osló í dag til þess að tryggja sér farseðillinn á Evrópumótið í Svíþjóð næsta sumar. Það má búast við því að það verði mun meira að gera hjá markverðinum Þóru Björg Helgadóttur heldur en í 2-0 sigrinum á Norður-Írlandi á laugardaginn.

„Þetta verður rosalega mikil spurning um hvort liðið verður betur stemmt á morgun (í dag). Getulega eru þetta tiltölulega svipuð lið og það er enginn stór munur á þeim. Þetta verður því spurning um hvort liðið sé betur undirbúið," segir Þóra.

„Við erum búnar að bíða rosalega lengi eftir þessum leik og það er ekkert hægt að neita því. Það tókst mjög vel að loka á hann fyrir Norður-Íra leikinn. Mér fannst við alveg ná því að gleyma honum þá daga sem við vorum saman þá. Ég er svolítið stolt af okkur að hafa getað það vegna þess að það hefði verið mjög auðvelt að fara hugsa um þennan leik strax og fá eitthvað einbeitaleysi á móti Norður-Írlandi. Eftir að þetta fór eins og það fór á móti Belgíu þá va rsamt planið að þetta yrði úrslitaleikur," segir Þóra en einu stigin sem íslenska liðið hefur tapað til þessa í riðlinum hafa verið í leikjunum tveimur á móti Belgíu.

Fyrir fjórum árum töpuðu íslensku stelpurnar fyrir Frakklandi í sömu stöðu, það er jafntefli hefði tryggt þeim sæti á EM. Þær töpuðu leiknum 1-2 en komust á EM í gegnum umspilið. En hvað hefur breyst hjá íslenska liðinu síðan þá?

„Mér finnst við fyrst og fremst vera með breiðari hóp núna og ég held að það sé enginn leikmaður sem við megum ekki missa. Það er rosalega jákvætt. Auðvitað viljum við að allir séu heilir en sama hver dettur út þá þýðir það ekkert "panik" hjá okkur. Fyrir fjórum árum var það orðið betra en fyrir átta árum en það er ennþá betra í dag," segir Þóra og hún segir enginn í liðinu vera að hugsa um Frakkaleikinn frá 2008.

„Ég var búin að gleyma honum og ég held að það sé mikilvægt að hann verði ekki rifjaður upp innan hópsins. Við ættum miklu frekar að hugsa aftur til fyrri leiksins. Við yfirspiluðum þær þá í fyrri hálfleik en slökuðum síðan aðeins á í seinni hálfleik og leyfðum þeim að rembast. Það er alveg leikur fyrir okkur að rifja upp," segir Þóra og hún þekkir vel til norska liðsins.

„Þetta er sært lið því þetta er gamalt stórveldi í kvennaboltanum og þær hafa ekki verið að ná sér á strik. Þær eru ennþá fyrir ofan okkur á styrkleikalistanum og eiga að vera betri. Ég held samt að þær séu skíthræddar við okkur og við ætlum að láta þær vinna fyrir peningunum," segir Þóra og hún býst við miklum baráttuleik.

„Þetta eru tvö líkamlega sterk lið og það er ekkert víst að þetta verði eitthvað fallegt á morgun en það skiptir ekki máli fyrir liðið sem fer áfram. Það er rosalega mikilvægt að komast beint áfram á EM. Við erum með öryggisnet en við viljum ekki þurfa að nota það," sagði Þóra að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×