Lífið

Hlátur og mikil dramatík

Guðrún Dís Emilsdóttir er umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins Flikk-Flakk sem hefur göngu sína á RÚV annað kvöld. Hún hlakkar mikið til að sjá árangurinn.
Guðrún Dís Emilsdóttir er umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins Flikk-Flakk sem hefur göngu sína á RÚV annað kvöld. Hún hlakkar mikið til að sjá árangurinn. fréttablaðið/Valli
Útvarpskonan Guðrún Dís Emilsdóttir mun stýra sjónvarpsþættinum Flikk-Flakk sem hefur göngu sína á RÚV annað kvöld. Gunna Dís er betur þekkt sem annar tveggja umsjónarmanna útvarpsþáttarins Virkir morgnar á Rás 2.

Í sjónvarpsþættinum ferðast fjórir hönnuðir með Gunnu Dís um landið og breyta niðurníddum hafnarsvæðum í falleg torg. Íbúar bæjanna sjá svo um að framkvæma breytingarnar og hafa til þess tvo daga. Gunna Dís hefur áður verið kynnir í beinum útsendingum Sjónvarpsins en þetta er fyrsta stóra verkefnið sem hún tekur að sér fyrir RÚV.

„Það var frekar auðvelt að færa sig yfir í sjónvarp þó ég hafi þurft smá tíma til að venjast því að sjá sjálfa mig í mynd. Maður fékk vissulega kjánahroll fyrst en sem betur fer rjátlaðist hann af manni," segir Gunna Dís.

Tökur á þáttunum fóru fram í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði í júní og kveðst Gunna Dís spennt að sjá afraksturinn enda hafi það litla sem hún hefur þegar séð lofað góðu.

„Ég vona að þetta verði pínu í anda ameríska raunveruleikaþáttarins Extreme Makeover, Home Edition, nema massífara. Þetta verður dramatík, hlátur og í raun allt nema grátur."

Samstarfsmaður Gunnu Dísar, útvarpsmaðurinn Andri Freyr Viðarsson, hefur einnig látið til sín taka á sjónvarpsskjánum í vetur og liggur því beinast við að spyrja hvort þau muni sjást saman á skjánum í nánustu framtíð. „Það hefur nú ekkert borist í tal. Er fólk ekki komið með nóg af okkur saman í útvarpinu? En ég útiloka ekki neitt." segir hún að lokum. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.