Innlent

Auglýst eftir nýjum yfirmönnum

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Tillaga um ýmsar breytingar á stjórnkerfi borgarinnar var lögð fram í borgarráði á fimmtudag. Sett verður á laggirnar nýtt umhverfis- og skipulagssvið og ný skrifstofa eigna og atvinnuþróunar. Jafnframt á að breyta skipuriti fyrir miðlæga stjórnsýslu hjá Reykjavíkurborg og stofna embætti umboðsmanns borgarbúa.

„Umboðsmaðurinn fær það hlutverk að leiðbeina borgarbúum sem telja að á sig hafi verið hallað að einhverju leyti í borgarkerfinu og vera okkur jafnframt til ráðgjafar um hvað megi betur fara,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.

Við breytingarnar verður framkvæmda- og eignasvið lagt niður og sett undir nýtt umhverfis- og skipulagssvið sem starfa á í umboði nýs skipulags- og umhverfisráðs. Ný skrifstofa eigna og atvinnuþróunar á að taka yfir hluta verkefna framkvæmda- og eignasviðs, meðal annars málefni eignasjóðs borgarinnar.

Minnihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í borgarráði sagði óvíst með fjárhagslegan ávinning af breytingum og gerði athugasemdir við vinnslu málsins.

Dagur segir breytingarnar verða gerðar í áföngum og að fullu komnar til framkvæmda fyrir lok ársins. „Það verður byrjað á því að auglýsa eftir yfirmönnum yfir nýja sviðinu og skrifstofunni sem munu síðan leiða annað starfsfólk í að móta þessa nýju starfsstaði.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×