Enski boltinn

Undanúrslitin í enska bikarnum um helgina

Brad Jones verður undir smásjánni í dag. 
nordic photos/getty images
Brad Jones verður undir smásjánni í dag. nordic photos/getty images
Það er risahelgi í enska boltanum. Ekki aðeins fara fram áhugaverðir leikir í ensku úrvalsdeildinni því undanúrslitaleikirnir í bikarkeppninni verða spilaðir á Wembley.

Erkifjendurnir í Liverpool og Everton hefja leik klukkan 11.30 í dag og á morgun er komið að Lundúnaliðunum Tottenham og Chelsea en sá leikur hefst klukkan 17.00.

Liverpool er í miklum markvarðavandræðum enda eru bæði aðalmarkvörðurinn, Pepe Reina, og varamarkvörðurinn, Alexander Doni, í leikbanni. Það kemur því í hlut Brad Jones að verja búrið hjá Liverpool í dag.

Jones er ekkert sérstaklega reynslumikill og hefur þess utan ekki verið í byrjunarliðinu síðan í desember árið 2010.

„Hann er spenntur rétt eins og allir aðrir. Hann hefur haldið sér í fínu formi í vetur þó svo hann hafi ekki gert ráð fyrir að spila. Hlutirnir breytast samt fljótt," sagði Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, en hann vonast til þess að þeir Daniel Agger og Glen Johnson verði klárir í slaginn.

David Moyes, stjóri Everton, segir að sitt lið mæti til leiks með sjálfstraustið í lagi.

„Nýju leikmennirnir okkar hafa komið virkilega sterkir inn og breytt liðinu til hins betra. Strákarnir sem voru fyrir hafa síðan bætt sinn leik og liðið er í virkilega góðu formi um þessar mundir. Við munum gera Liverpool erfitt fyrir í þessum leik," sagði Moyes borubrattur en búast má við átakaleik innan sem utan vallar á Wembley í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×