Innlent

Aldrei fleiri möguleikar í fluginu

Allir sem koma að flugi um Keflavíkurvöll vinna saman til að umferðin gangi sem greiðast.
Allir sem koma að flugi um Keflavíkurvöll vinna saman til að umferðin gangi sem greiðast. Fréttablaðið/ÓKÁ
ISAVIA býst við að umfang flugstarfsemi í Keflavík slái öll fyrri met í sumar. Ráðist í endurbætur í Leifsstöð. Í sumar geta farþegar á leið til Lundúna, Berlínar, Alicante og Parísar valið á milli fjögurra flugfélaga. Í sumar er búist við að daglega fari um 15 þúsund farþegar um Leifsstöð þegar mest lætur.

Áætlað er að umfang flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli slái öll fyrri met í sumar.

„Veruleg aukning verður í leiðakerfum flugrekenda sem aldrei hafa haft jafnmarga áfangastaði í áætlunar- og leiguflugi til og frá landinu,“ segir í tilkynningu sem ISAVIA sendi nýverið frá sér. Alls koma 17 flugfélög til með að halda uppi ferðum til landsins í sumar og tvö ný félög hyggja á áætlunarflug allt árið.

Nýju félögin eru Wow air og Easyjet, en með tilkomu þeirra eru Lundúnir, eða flugvellir í nágrenni borgarinnar, í áætlunarflugi hjá fjórum flugfélögum, en bæði Icelandair og Iceland Express fljúga þangað í áætlunarflugi.

Þótt flugfélögum sem fljúga frá Keflavík hafi fjölgað mjög virðist í fljótu bragði sem áfangastaðir skarist ekki verulega þótt fjölgi mjög úrvali áfangastaða í einstökum löndum. Í fljótu bragði virðist sem mest samkeppni verði í flugi til Lundúna, Alicante, Berlínar og Parísar, en fjögur flugfélög bjóða upp á flug á þessa staði í sumar. Síðan eru nokkuð fleiri borgir sem þrjú flugfélög fljúga til. Dæmi um það eru vinsælir áfangastaðir á borð við Kaupmannahöfn, Ósló og Hamborg.

Þá bætast náttúrlega við áfangastaðir sem íslensku flugfélögin eru ekki með á sinni flugáætlun. Til að mynda er samkeppni í flugi héðan til Vínarborgar, en þar bítast um farþegana flugfélögin Austrian og Niki Luftfahrt.

Í áðurnefndri tilkynningu ISAVIA kemur fram að álag á starfsemina á Keflavíkurflugvelli aukist gríðarlega yfir sumarmánuðina. „Síðastliðið sumar voru 18 til 20 farþegaflug afgreidd á háannatíma að morgni og síðdegis flesta daga vikunnar. Samkvæmt áætlun á komandi sumri munu 23 farþegaflug verða afgreidd yfir háannatíma að morgni og síðdegis þegar álagið er hvað mest.“

Búist er við að daglega fari um 15 þúsund farþegar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar mest verður um háannatímann í júní, júlí og ágúst. Til þess að anna aukinni umferð verður á næstu vikum ráðist í endurbætur á flugstöðinni. „Gerður verður nýr inngangur í norðurbyggingu flugstöðvarinnar fyrir farþega sem fluttir verða með rútum til og frá flugvélum sem fá afgreiðslu á stæðum fjarri flugstöðinni. Afköst í vopnaleit verða aukin, og sjálfsinnritunarstöðvum fjölgað í brottfararsal.“olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×