Innlent

Vinabeiðni aðmíráls reyndist fölsk

James Stavridis
James Stavridis
Yfirmenn í herafla Bandaríkjanna og Bretlands, auk háttsettra embættismanna í löndunum tveimur, féllu í gildru njósnara þegar þeir samþykktu vinabeiðni á Facebook-samskiptasíðunni sem virtist vera frá James Stavridis, bandarískum aðmírál sem starfar nú sem yfirmaður herafla NATO í Evrópu.

Stavridis hafði hins vegar ekki tekið upp á því að setja upp síðu á Facebook, heldur er talið að kínverskir njósnarar hafi staðið á bak við tiltækið, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins Telegraph um málið.

Tilgangurinn með þessu var að fá sem mest af persónulegum upplýsingum um þessa nýju vini falska aðmírálsins. Hvorki Facebook né NATO hafa gefið upp hversu margir féllu í gildruna.

Njósnararnir fengu með þessu upplýsingar á borð við persónuleg netföng, símanúmer, nöfn fjölskyldumeðlima, myndir og jafnvel upplýsingar um ferðalög viðkomandi. Slíkar upplýsingar geta nýst á margvíslegan hátt, til dæmis til að auðvelda tölvuþrjótum að hakka sig inn í mikilvæg kerfi, og mögulega til að kúga viðkomandi til að gera eitthvað vafasamt.

Afleiðingarnar af þessu urðu aðrar en einhverjir hefðu getað reiknað með. Í stað þess að setja hömlur á notkun á Facebook-síðunni krefst NATO þess nú að yfirmenn og erindrekar hjá bandalaginu séu með sína eigin Facebook-síðu til að koma í veg fyrir sambærileg atvik í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×