„Ég er búinn að taka á mínum málum en það sem er sárast fyrir mig er að hafa fallið eftir tæplega 26 ára edrúmennsku," segir Páll Reynisson, stofnandi Veiðisafnsins á Stokkseyri.
Veiðisafnið heldur sína árlegu byssusýningu um helgina þrátt fyrir að Páll hafi verið handtekinn í júlí í fyrra eftir að hann hafði skotið af skammbyssum og haft í hótunum við lögreglumenn.
„Það mál er í ferli í kerfinu. Ég gerði mistök og þau eru viðurkennd. Það gera allir mistök," segir Páll, spurður út í stöðu mála. „Það var sárt að falla eftir 26 ár fyrir Bakkusi en það skeði og ég gerði mistök og hef beðist afsökunar á því."
Páll missti vopnaleyfið tímabundið á meðan mál hans er til meðhöndlunar og þess vegna er það Veiðisafnið og ábyrgðarmenn þess sem halda byssusýninguna í ár en ekki hann sjálfur.
Sýningin hefur notið mikilla vinsælda síðan Veiðisafnið var opnað árið 2004. Safnið sjálft hefur einnig verið vel sótt. Flestir komu þangað árið 2009, eða tæplega tíu þúsund manns.
Aðspurður segist Páll ekki óttast að almenningur þori ekki að láta sjá sig þetta árið. „Þó að þetta hafi skeð þá vita þeir sem til þekkja að kallinn er alveg í lagi. Ég vil þakka fyrir þann stuðning og skilning sem ég hef fengið í þessu máli, hann hefur verið ótrúlegur og hefur komið mér á óvart."

„Þessi sýning er aldrei eins, það er það skemmtilega við hana. Ég held að þessar föstu sýningar Veiðisafnsins hafi ýtt undir það að menn haldi byssusýningar. Það hefur orðið vakning í þessu, sérstaklega fyrir norðan og austan."
Páll er mikill veiðimaður og er með mörg uppstoppuð dýr í Veiðisafninu. Yfir tveggja metra hár strútur, sem er sá eini á landinu, er væntanlegur á safnið í byrjun sumars, auk krókódíla, fjögurra antilópa og móts af risastórum nashyrningi sem er enn þá lifandi. Þessi dýr veiddi hann í Suður-Afríku rétt undir áramótin 2010.

„Maður heldur ótrauður áfram þótt maður detti í stiganum. Við erum öll mannleg."
freyr@frettabladid.is