Lífið

Syngur þjóðsönginn fyrir 50 þúsund Japani í Osaka

Hildur Kristín Stefánsdóttir hefur fengið reglur frá Japönunum sem sjá um vináttulandsleikinn við Ísland. Hún má til dæmis ekki vera í hælaskóm og flutningur íslenska þjóðsöngsins má alls ekki vera lengri en 95 sekúndur.
Hildur Kristín Stefánsdóttir hefur fengið reglur frá Japönunum sem sjá um vináttulandsleikinn við Ísland. Hún má til dæmis ekki vera í hælaskóm og flutningur íslenska þjóðsöngsins má alls ekki vera lengri en 95 sekúndur.

„Þetta er svo fyndið og absúrd að ég get ekki verið stressuð yfir þessu," segir Hildur Kristín Stefánsdóttir, tónlistarkona og skiptinemi frá Háskóla Íslands í Tokyo.

Hildur syngur þjóðsöng Íslands fyrir vináttuleik íslenska landsliðsins í knattspyrnu við Japani á morgun. Landsleikurinn fer fram í Osaka í Japan og er búist við um 50.000 áhorfendum á leikvanginn. „Þetta er lang stærsti hópur sem ég hef sungið fyrir og mjög spennandi allt saman," segir Hildur en hún er meðlimur í hljómsveitinni Rökkurró þar sem hún bæði syngur og spilar á selló.

Íslenski þjóðsöngurinn er þekktur fyrir að vera heldur óþjáll með sína háu tóna og hefur Hildur fengið að kynnast því undanfarna daga. „Þetta er erfiðasta lag sem hægt er biðja mann um að syngja en ég fékk sem betur fer heilan mánuð til að undirbúa mig. Ég þakka bara fyrir að hafa tekið eitt ár í óperusöng fyrir nokkrum árum."

Það var íslenski sendiherrann í Tokyo sem benti á Hildi í verkefnið en hún kom í fyrsta sinn fram í Japan í litlu boði hjá sendiráðinu. „Þegar ég kom út bjóst ég við að vera í pásu frá tónlist því hljómsveitin mín er auðvitað staðsett á Íslandi. En ég sá fljótt að það myndi aldrei ganga, enda elska ég tónlist of mikið og tækifærin hér eru svo spennandi. Ég tróð svo upp á samnorrænni kvikmyndahátíð hérna úti og þá fór boltinn að rúlla. Það er frábært að vera hér í námi og geta fengið að upplifa japanska menningu en um leið fá tækifæri til að sinna tónlistinni," segir Hildur sem kallar sóló verkefni sitt Lily and Fox.

Mikill áhugi er á leiknum hérlendis þó einungis sé um vináttulandsleik að ræða en leikurinn verður sá fyrsti undir stjórn Svíans Lars Lagerbäck. Hildur hefur verið í miklu sambandi við þá sem sjá um undirbúning leiksins í aðdragandanum og segir þau samskipti hafa verið skondin.

„Japanar eru rosalega nákvæmir í öllu sem þeir gera og ég hef fengið fullt af reglum sem ég verð að fylgja. Til dæmis er mér bannað að mæta í háhæluðum skóm því það skemmir grasið á vellinum. Svo má ég ekki syngja lengur en nákvæmlega 95 sekúndur," segir Hildur sem stendur með hljóðnema á miðjum leikvanginum í Osaka klukkan 10.15 í fyrramálið á íslenskum tíma.

alfrun@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.