Innlent

Fundar með Huang Nubo í Kína

Bergur Elías Ágústsson
Bergur Elías Ágústsson
Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, er í Beijing í Kína. Þar mun hann funda með kínverska fjárfestinum Huang Nubo, sem hefur augastað á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. „Ég er að ræða við Nubo um hvort hægt sé að koma einhverjum hugmyndum hans á skrið aftur,“ segir Bergur.

Ferðin til Kína er á vegum sveitarfélagsins og að frumkvæði þess og segir Bergur hana lið í því að auka ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Hann segir miklar fjárfestingar í þeim geira og áhugi Huangs geta verið lyftistöng fyrir svæðið.

„Við erum með nokkrar sviðsmyndir sem við ætlum að fara í gegnum, en ég vil ekki tjá mig um þær á þessari stundu. Það er góðra manna siður að ræða fyrst við þann sem hlut á að máli.“

Innanríkisráðherra hafnaði beiðni Huangs um undanþágu á banni aðila utan EES-svæðisins á kaupum á jörðum á Íslandi. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um hvernig af fjárfestingum hans geti engu að síður orðið.

„Ég á í sjálfu sér ekki von á niðurstöðu í ferðinni, enda yrði slíkt aldrei gert nema í samvinnu yfirvalda og þeirra sem að málinu koma. Vonandi verður hægt að ganga frá vegvísum um hvernig hægt er að vinna málið.“

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×