Innlent

Kjaraskerðing verði afturkölluð nú þegar

Eldri borgarar Vilja sitja við sama borð og aðrir.
Eldri borgarar Vilja sitja við sama borð og aðrir.
Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni krefst þess að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja frá 1. júlí 2009 verði þegar í stað afturkölluð með gildistíma frá 1. október 2011.

Svo segir í ályktun kjaranefndar sem vísar í þessum efnum til þess að kjararáð hafi ákveðið að afturkalla launalækkun ráðherra, þingmanna og embættismanna, sem tók gildi 2009 vegna kreppunnar. Kjaranefnd bendir á að afturköllunin eigi að gilda frá 1. október 2011 og hafi launalækkun þessara aðila numið 5 til 15 prósentum.

Kjaranefndin segir að ríkið geti ekki mismunað þeim sem hæst hafi launin og hinum sem við verstu kjörin búi.

„Jafnframt krefst kjaranefnd FEB þess að hækkun á lífeyri aldraðra og öryrkja frá 1. janúar 2012 verði 11.000 á mánuði í stað 3,5 prósent eins og ríkisstjórnin hefur ákveðið,“ segir enn fremur í ályktuninni. „ASÍ telur að samkvæmt yfirlýsingu þeirri sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við nýja kjarasamninga sl. vor eigi lífeyrir lífeyrisþega að hækka um 11.000 á mánuði en hækkun sú er ríkisstjórnin ákvað er aðeins rúmlega helmingur þeirrar fjárhæðar.“- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×